Geðheilsa er langhlaup ekki sprettþraut

Upp­lýs­ing­ar um geðlyfja­notk­un ís­lenskra barna eru slá­andi. Börn und­ir 14 ára aldri fá ávísað marg­falt miðað við jafn­aldra sína á hinum Norður­lönd­un­um. Hér hafa 3,7% barna fengið ávísað geðlyfj­um fyr­ir 14 ára ald­ur. Hlut­fallið er 0,8% í Svíþjóð, 0,21% í Dan­mörku og 0,15% í Nor­egi. Þannig að miðað við Dan­mörku er þetta nærri átján­falt og miðað við Nor­eg fá ís­lensk börn ávísað 25 sinn­um meira af geðlyfj­um. Að auki nota Íslend­ing­ar meira af geðlyfj­um á hverja 1000 íbúa en öll Norður­lönd­in. Aukn­ing á sjö ára tíma­bili er 25%, þvert á ald­urs­hópa, en 16% hjá yngsta hópn­um.

Lyf geta verið eina svarið í stöðu margra. Þau bjarga líf­um og bæta lífs­gæði fólks. En þegar svona mik­ill mun­ur kem­ur fram, miðað við ná­granna­lönd­in, vakna spurn­ing­ar.

Hvað segja þess­ar töl­ur okk­ur?

Þess­ar töl­ur veita upp­lýs­ing­ar um grein­ing­ar og lyfja­á­vís­an­ir, en segja ekk­ert um ástæður né or­sak­ir. Get­ur verið að hér á landi séu lækn­ar gjarn­ari á að gefa ein­kenn­um nafn og þar af leiðandi að ávísa lyfj­um. Hinn mögu­leik­inn er að á Íslandi sé ein­fald­lega meiri van­líðan og kvíði og þetta sýni hár­rétt viðbragð við því. En mörg­um spurn­ing­um sem þess­um er ósvarað.

Líta Íslend­ing­ar öðru­vísi á vanda­mál og tak­ast á við þau á ann­an hátt en grannþjóðir okk­ar? Ef til vill ræðum við síður um erfiðar til­finn­ing­ar, höf­um lág­an þrösk­uld fyr­ir sárs­auka og erfiðum aðstæðum. Ham­ingja er stöðutákn í stað þess að vera ávinn­ing­ur af þraut­seigju og fólk vill skjót­feng­ar lausn­ir.

Er meira álag á fjöl­skyld­um á Íslandi en á hinum Norður­lönd­un­um? Er vinnu­markaður­inn ófjöl­skyldu­vænni? Er skóla­kerfið í grund­vall­ar­atriðum ólíkt? Skýr­ir það þenn­an mun? Mikið hef­ur verið rætt um álag á fyrsta stigs heil­brigðisþjón­ustu á Íslandi og bent á að skort­ur sé á úrræðum. Kerfið kall­ar á viðbrögð sem ekki eru til staðar eða ekki með nægj­an­legt bol­magn að bregðast við þörf­inni. Fjöl­breyti­leiki í þjón­ustu við fjöl­skyld­ur er mik­il­væg­ur og aðgengi að fyr­ir­byggj­andi aðferðum nauðsyn­leg­ur.

Hvað er fjöl­skyldumeðferð?

Fjöl­skyldumeðferð er gagn­reynd aðferð, sprott­in úr kenn­ing­um fé­lags- og sál­fræði. Litið er á fjöl­skyld­una sem eina heild, nokk­urs kon­ar kerfi þar sem all­ir hafa ákveðinn til­gang.

Tengsl við umönn­un­araðila í frum­bernsku hafa áhrif á hvernig við upp­lif­um heim­inn og litar skiln­ing okk­ar á hon­um fram á full­orðins­ár. Sam­bönd seinna á líf­leiðinni mót­ast af þess­um fyrstu tengsl­um. Meg­in for­send­an er að ekk­ert ger­ist í tóma­rúmi og eng­inn er ey­land.

Fjöl­skyldu­fræðing­ur skoðar tengsl og kerfið sem við erum sprott­in úr. Hann reyn­ir að finna út af hverju það er eins og það er, hver eru hlut­verk­in, hvar eru skekkj­urn­ar og eru þær skaðleg­ar. Með skiln­ingi á tengslamynstr­um er hægt að bæta sam­skipti og dýpka sam­bönd við ást­vini. Ástrík og góð tengsl eru for­vörn í sjálf­um sér.

Tök­um sem dæmi barn með skóla­forðun. Út frá hug­mynda­fræði fjöl­skyldu­fræðinn­ar er heilla­væn­leg­ast að skoða um­hverfi barns­ins til að skilja hvað or­sak­ar og viðheld­ur vand­an­um. Það hef­ur til dæm­is ekk­ert gildi að segja að barn sé með kvíða, ef við skoðum ekki hvað felst í því og hvað viðheld­ur kvíðanum. Lyf geta verið mjög gagn­leg og stund­um lífs­nauðsyn­leg, en ein og sér eru þau bara plást­ur.

Í fjöl­skyldumeðferð er skoðað hvernig for­eldr­um geng­ur að hjálpa barni sínu að vinna með kvíðann. Er barnið kvíðið vegna álags á for­eldr­ana, og hvað um systkin­in? Hvernig er sam­bandið þeirra á milli? Þetta er fyr­ir­byggj­andi hugs­un þar sem merkimiðar eru ekki aðal­atriði.

All­ir sem til­heyra fjöl­skyld­unni geta átt er­indi í fjöl­skyldumeðferðina. Fjöl­skyldu­fræðing­ur­inn vinn­ur alltaf út frá þeirri for­sendu að fjöl­skyldu­kerf­in sem viðkom­andi kem­ur úr, séu í lyk­il­hlut­verki. Lögð er áhersla á að skapa jafn­vægi og bæta sam­skipti út frá kerf­is- og tengsla­kenn­ing­um sem leggja grunn að fjöl­skyldu­fræði.

Fjöl­skylduráðgjaf­ar vinna á stof­um og víðsveg­ar í kerf­inu. Þekkt­asta formið er hjóna- og par­aráðgjöf. Stund­um koma börn­in með. Full­orðin systkini koma til að skoða sam­skipta­vanda eða dýpka sam­skipti við for­eldra sína, stjúp­for­eldri eða stjúp­börn. En alltaf er til­gang­ur­inn að skapa jafn­vægi, bæta sam­skipti og auka skiln­ing milli fólks.

Ein­stak­ling­ar hafa stund­um leitað sér hjálp­ar árum sam­an, án breyt­inga til batnaðar og van­líðan og sam­skipta­vand­inn verður viðvar­andi. Það er svo ekki fyrr en vanda­mál­in eru skoðuð í stærra sam­hengi sem hlut­irn­ir fara að horfa til betri veg­ar. Fjöl­skyldu­fræðing­ur skoðar oft fjöl­skyldu­tré með fólki og reyn­ir að finna mynstur og sögu sem kann að hafa áhrif enn í dag. Það er oft al­gjör­lega nýtt sjón­ar­horn að sjá sig sem hluta af stærri mynd og set­ur vanda­mál líðandi stund­ar oft á tíðum í allt annað sam­hengi.

Fjöl­skyldumeðferð get­ur hjálpað fólki að tala er um erfiðar til­finn­ing­ar. Það er mik­il­vægt að tala um áföll, Þau eru eðli­leg­ur hluti af líf­inu. Það sem er ekki eðli­legt er að líta á viðbrögð við þeim sem eitt­hvað óeðli­legt sem þarf að laga eða flýja. For­eldr­ar geta hjálpað börn­um sín­um með því að fara með þeim í fjöl­skyldumeðferð og lært að ræða sam­an á upp­byggi­leg­an hátt. Með auknu aðgengi að fjöl­breyttri þjón­ustu bæt­um við vel­ferð fjöl­skyldna. Það er ljóst að það þarf að breyta áhersl­um þegar kem­ur að and­legri heilsu og fjöl­skyldumeðferð gæti verið mik­il­væg­ur liður í því.